September 2017 leið hjá

posted in: Á döfinni | 0

Í Gerðubergi sá ég sýningu Dereks K. Mundell. Sýningin ber nafnið Gróður elds og ísa og sendur til 19. nóvember. Þarf að sjá hana aftur. Frábærir litir og tæknin ótrúleg.

Skólafélagar, árg.1944, úr Brekkubæjarskóla á Akranesi fóru í ferð austur í sveitir. Við fórum í gróðróðrastöðina í Friðheimum og fengum þar skemmtilega leiðsögn, góða súpu og brauð. Við komum við hjá fossinum Faxa í Tungufljóti, ótrúlega fallegur staður sem vert er að skoða. Síðan heimsóttum við skólabróður sem á ásamt konu sinni glæsilgan bústað í sveitinni. Um kvöldið var snæddur kvöldverður á Hótel Örk. Það eru skólasystur okkar sem hafa í gegnum árin staðið fyrir mörgum frábærum dagsferðum.

Samkennarar mínir í Ísaksskóla hafa haldið hópinn í gegnum árin og í septemberbyrjun heimsóttum við Perluna sem hefur fengið veglega andlitslyftingu. Þar kom til okkar ungur maður og fagnaði okkur vel. Hann bauð hópnum til að skoða íshellinn og sýningu sem fjallar um náttúru Íslands. -  Frábær og óvænt stund sem við áttum á safninu. -  Hlakka til að fylgjast með framþróun staðarins . Til þess að láta slíkan draum, sem þessar framkvæmdireru sannarlega, rætast þarf mikinn kjark og áræði svo að ég tali nú ekki um peninga. Vona bara að allt gangi sem best og að Íslendingar, og þá sérstaklega íslenskir nemendur, fái notið fræðslu og þekkingar sem svo aftur leiðir þá til betri skilnings og virðingu fyrir náttúrinni okkar allra. 

Enn berast að mér berin og nú frá góðri vinkonu sem ræktar stór og góð stikilsber í garðinum sínum. Úr þeim gerði ég stikilsberjahlaup sem er bæði bragðgott og fallegt.

Ég hef áður sagt frá því að góður granni gróðursetti fyrir nokkrum árum tvö eplatré í garðinum við Vallengi. Í ár bar annað tréð tvö epli sem gefa góða von um að hægt sé að rækta ávexti hér á landi ef vel að vandað til verka.

Ég elska að taka myndir í garðinum við húsið. Þar vaxa  ótrúlega margar tegundir jurta sem vert er að skoða allan ársins hring.

 

Leave a Reply