Nám í leirmótun

Fyrir óralöngu bauðst mér að gerast nemandi í Myndlistarskóla Kópavogs. Þar var og er skólastjóri Sigríður Einarsdóttir myndlistarkennari. Sigríður bauð okkur samkennurum sínum við nýjan skóla, Selásskóla í Reykjavík, að koma og kynnast starfinu í Myndlistarskóla Kópavogs. Sigríður er annar af stofnendum skólans.

Það fór svo að í gegnum árin hef ég sótt ýmis námskeið við skólann hjá nokkrum kennurum og er enn að, nú síðast á vorönn 2016 í leirmótun hjá Erlu Huld Sigurðardóttur. Erla Huld er nú, jafnframt kennslu í mótun annar stjórnandi skólans.   

Við skólann er kennd teikning, vatnslitun, myndlist og málun, leirmótun og vefsíðugerð. Námskeið fyrir börn,unglinga og eldri borgara eru allan veturinn og svo einnig sumarnámskeið fyrir alla aldurshópa. 

Ástæða þess að ég hef verið svona lengi viðloðandi skólann er að þar hefur mér ávallt liðið vel, þar er góður andi og vel hugsað um alla. Ég er ein af þeim sem hef sótt námskeið í vefsíðugerð hjá Elínu Sigurðardóttur, og það er henni að þakka að ég set hér fram yfirlit yfir feril minn við skólann.

Mér finnst gott að gera hér á heimasíðunni upp við sjálfa mig og aðra hvað í ósköpunum ég hef viljað með að sækja svo mörg námskeið og hvað þetta nám hefur gefið mér.

Það var skemmtilegt að vera með samkennurum úr Selásskóla á námskeiði í leirmótun. Mikill áhugi, skraf og hlátur styrkti kynni og samstarf okkar nemendanna. -Í byrjun kynntumst við nokkrum aðferðum og eitt fyrsta verkefnið var að gera vasa með "kúluaðferð" í rauðleir. Hann var sléttaður með teskeið, mynstraður með trjágrein, glerjaður að innan og sami glerungur borinn í munstur. Því miður á ég minn vasa ekki lengur en man hann vel.

 

Næst áttum við að móta eftir náttúrulegu formi og ég valdi mér hvítlauk. Við notuðum rauðleir, mótuðum, skárum í sundur, grófum innan úr, límdum saman aftur með leir, sléttuðum og bárum glerung í línur. Í framhaldinu fengum við að gera nytjahluti og ég gerði fat eftir grunnformi lauksins og svo kom ævintýrið með ketilinn.

 

 

Stór kanna eða gólfvasi unninn í steinleir.

 

Dýrabein, trúlega úr mjaðmalið.

 Kennari í þessum  verkefnum var Ingunn Stefánsdóttir

Frjáls hugmyndavinna. Kennari: Erla Huld Sigurðardóttir 

Minna fjallið rúmast (með lagni) inni í því stærra og þau eru lituð með ólíkum litum og glerjungum. Litla fjallið á að minna okkur á eldsumbrot í iðrum jarðar en það stærra á viðkvæma gróðurþekjuna með mjúkum jarðlitum.

Bakki unninn eftir rauðkálsblaði. Steinleir, kobalt, kopar og glær glerungur. Minni bakkinn eða öllu frekar skúlptúrinn verður til þegar leir er notaður til að styðja formið í hrábrennslu og þá er sett sag á milli.

Hér er unninn nytjahlutur eða fiskifat eftir "modeli", sem hefur líklegast verið djúpkarfi því augun eru svo ógnarstór.

Þessi vasi er unninn eftir skoðun á  útilistaverkum eftir þekka listamenn. Hann hefur þrjár hliðar. - Fiskur leyndist undir steini.- Myndin sem sést í fyrir aftan er grafikmynd eftir Jóhönnu Bogadóttur skólasystur úr MA. Myndin heitir  „Þrá“ og er gjöf til mín frá móður minni, sem keypti hana af Jóhönnu. Lýsir þeim báðum vel.

Kona

 

Hér er konulíkaminn tekinn til skoðunar, nánar tiltekið móðurlífið. Tilfinningar, tilfinningalíf, þroski, vöxtur, breytingar og hnignun. Hver kona á sér sínar sögur.

Steinleirsvasi unninn með blandaðri aðferð, glattaður, skreyttur og ragúbrenndur. Í lokin er hann vaxborinn. Hann er viðkvæmur og þarfnast umhyggju, rétt eins og andrúmsloftið. Vasinn er gerður undir áhrifum frá þemavinnu um himingeimnum, sem var unnin með börnum og kennurum, á Skólasafni í Selásskóla.

 

 

Kannan unnin með blandaðri tækni, máluð með leirlitum og kóbalt, glerjuð með hvítum glerjungi. Unnið á námskeiði hjá Erlu Huld.

Fífillinn er einn besti vorboðinn og vinur æskunnar sem mætti gjarnan virða hann meira.

 

Tvöfaldur gólfvasi, byggður á hugmynd um fiðrildi sem flýgur frjálst úr púpunni, helsinu, þar sem það ummyndaðist og þroskaðist.

Sett  hér fram  á degi kosningarréttar kvenna og verkamanna 19. júní 2016. Frelsið er fagurt en vandmeðfarið. Það fæst ekki án fyrirhafnar og þarfnast stöðugrar umhyggju allra kynslóða um allan heim.

Á 25. afmælisári Myndlistaskóla Kópavogs máttu nemendur vinna frjálst að verki. Ég valdi mér að vinna með hafið og reyndi að gera fiska sem áttu að verá á stöplum eða festast í grúppu á vegg.  þeir liggja enn flatir í gluggakistunni minni en mig dreymir um að setja þá á hvítan vegg þar sem skuggar geta gefið þeim aukið líf.  Þeir fljóta hér með!

"Ég elska hafið æst er stormur gnýr", sungum við í MA. Aldan og skipflakið komu næst. Ótrúlegir hlutir gerast þegar leirinn tekur völdin. þótt allt molni  í klessu má vinna úr því!  "Við gefumst ekki upp, þótt á móti blási"

Og enn taka fiskarnir völdin. Þennan vasa gerði ég handa syni mínum og fjölskyldu hans. Á annarri hliðinni eru þau öll saman en á hinni hann sem einstaklingur.  

Það er fátt skemmtilegra en að grípa í leirklump og móta hraðskissu eftir fyrirmynd. Hér eru nokkrar, ein úr rauðleir og fjórar úr svörtum leir.

Hér er ég enn að. Fyrir nokkrum árum reyndi ég að endurtaka tvöfaldan vasa en það tókst ekki betur en svo að sá varð of þröngur eða kannski bara sá innri of umfangsmikill.Allt um það. sá ytri gekk í gegnum nokkrar brennslur og endaði svartur með svolitlum ljósum blettum hér og þar. Nú í vor 2018 bauðst mér að vinna á námskeiði hjá Erlu Sigurðardóttur og þar tókst með góðri hjálp að gera þunnan vasa. sem smýgur inn í þann ytri. Hér sést svo árangurinn og ég er bara nokkuð sátt. Auðvitað eru gallar á vasanum, hann er óstöðugur, en fær stuðning af þeim ytri og svo eru samskeyti ekki nógu vel unnin en glerungurinn er fallegur og er frá skólanum

Hér er hann aftur fyrsti tvöfaldi vasinn og kominn í hátíðarbúning í júní 2018. Hann er hér í sínu fínasta pússi skreyttur burkna og rósum af góðu tilefni.