Kerling gafst þó ekki upp, sentist niður til Reykjavíkur, fékk sér léttlopa í nýja peysu á plitinn og settist við prjónaskap. Allt tókst þetta að lokum en heldur stingur hún blessunin svo óvíst er að hún komi að þeim notum sem ætlað var, -  en alltaf má finna................

Hautið 2017 sat konan við og prjónaði þessa peysu handa ungum manni. Uppskriftina fékk hún úr bókinni Íslenskt prjón og notaði færeyskt garn í stað léttlopa. Ltirnir voru fallegir og peysan mjúk en verkið tók sinn tíma hjá konunni svo þar rættist máltækið "Barnið vex en brókin ekki".

Eftir jólin var freistandi að halda áfram með rauða litinn og setja niður dömuhúfu eftir Guðrúnu.

Hafði mjög gaman af að spreyta mig á að prjóna jólasveinahúfur eftir fyrirmynd
frá Hlín Daníelsdóttur og uppskrift úr bókinni Húfuprjón eftir Guðrúnu Magnúsdóttur.
Þetta tókst og ég kláraði tvær húfur.

Upphlutsrós með silfurlituðu munstri

Þessa lopapeysu er að finna í því ágæta blaði Lopi og band , nr 4. Munstrið vísar til þjóðbúningsins okkar og kemur vel út í hærusvörtum, tvöföldum lopa með munstri, sem er gert með einföldum gráum lopa og tvöföldu eingirni einnig ljósgráu.

Ljósgrá lopapeysa

Þetta er peysa, sem ég hef verið að prjóna í vor. Fyrst prjónaði ég hana dökkgráa en fannst liturinn ekki henta þeim sem átti að fá peysuna. Hjá hárgreiðslukonunni minni, henni Margréti Halldórsdóttur, fékk ég þá góðu hugmynd að hafa peysuna ljósgráa með hvítu munstri og þykir mér útkoman létt og góð. Ég hafði peysuna opna og prjónaði listana að framan með perluprjóni.

Enn prjónar konan.

Gekk hægt með þessa en hér stækka ég uppskriftina og vinn peysuna í milligráan plötulopa.

Vona bara að flíkin passi þeim sem hún er ætluð annars fer hún bara eitthvað þar sem hún kemur að gagni.

Gömlu „tiljunar“  frá Margréti tengdamóður minni  eru hér séðar frá hlið. Mér þykir trúlegt að hér hafi verið tekinn slitinn hæll af leistum og þeim breytt í skó. Takið eftir að hælstykkið er heklað og það úr allt örðu garni, sjálfsagt til að stækka skóinn.  Nýtni var í háveguð höfð og oft af mikilli nauðsyn. Mér rennur einnig í grun að stundum hafi stroffin á sokkunum verið nýtt með því að prjónaðir voru við þá nýir leistar.

Margrét var mikil handavinnu- og listakona. Hún ætti sannarlega skilið hér væri sýnt eitthvað af því sem hún afrekaði um ævina.

Hér nýtti ég mér hugmynd hennar og veit að hún væri bara ánægð með það.

Margréti var mér ávallt mjög góð og á milli okkar ríkti einlæg vinátta alla tíð.

„Tátiljur“ úr lopa.  – minnisblað -

 

Fór eftir gömlum „tiljum“ frá Margréti tengdamóður minni og mynd frá Pinterest.

Set þær hér fram sem eina stærð. Getur passað flestum þarf kannski að lengja eða stytta eftir

fótastærð.

 

Efni: tvöfaldur plötulopi

Prjónastærð: no 5

Heklunál: no 3 ½

  1. Fitja upp 36 lykkjur
  2. Prjóna tástykki u.þ.b. 12 umferðir slétt og brugðið
  3. Prjóna garðaprjón áfram og hafa elleftu lykkju frá hvorum kanti slétta á röngunni (gott að setja merki með mislitu garni við sléttu lykkjuna á röngunni) 12-13 lykkjur í botninum!
  4. Prjóna áfram að hæl allt eftir fótstærð, fella af á réttunni.
  5. Taka saman lykkjur fremst á tástykki og sauma saman hliðarnar upp eftir ristinni
  6. Loka hæl
  7. Hekla kant (hér „öldumynstur“) og skreyta skó að vild