Pelagónía í g rænum potti

Vatnslitir eru heillandi miðill og ég ber mikla virðingu fyrir þeim, sem kunna að beita þeim rétt. Sjálf hef ég sótt námskeið í vatnslitun í Myndlistarskóla Kópavogs og reynt að spreyta mi með misjöfnum árangri.

Seinasti kennarinn minn kvaddi mig og hughreysti með þeim orðum að "líklegast gæti ég orðið þokkaleg í að mála blóm". Þessi orð urðu til þess að ég reyndi nokkrum sinnum að gera kort til gjafa. Með kortunum fylgdu svo plönturnar sem ég hafði málað eftir. Þiggjendur voru góðir vinir mínir og hrósuðu mér sem von var fyrir verkin. Sjálf fékk ég talsvert út úr þessu en hrósið var gefið af góðum hug. Tvöföld gleði í hvert sinn.

Vonandi verð ég duglegri í framtíðinni að dunda mér við að mála blóm. Af nógu er að taka. Allt sem þarf er ró, friður og framtak og launin eru gleði og vellíðan.

Pelagónía í rauðum potti

Næsti þiggjandi pelagóníu var barnabarn mitt, sem fagnaði gjöfinni mjög og stillti í glugga. Það er gaman að gleðja og sannast oftast máltækið að "sælla er að gefa en þiggja." Það sést greinilega að á þessari mynd nota ég aðra stillingu á myndavélinni og næ fram öðrum hrifum. Og enn er ánægjan tvöföld ef ekki þreföld ef talin er með glíman við myndavélina og tæknina.

Ástareldur

Enn og aftur málaði ég blóm og í þetta sinn Ástareld. Myndina set ég svo í kort eða karton og skrifa viðeigandi kveðju. Með þessu móti skapast ákveðin tenging milli gefanda og þiggjanda, sem lifir a.m.k. á meðan málað er og hugleitt og svo þann tíma sem þiggjandinn annast plöntuna, ræktun eins og best gerist! 

Blóm í vasa

Blómin eru frá bróður mínum og mágkonu. Þau færðu mér þau síðast þegar þau komu hingað frá Noregi þar sem þau búa.

Ég tek oft myndir af blómum, sem mér eru færð og á því nóg af efni til að mála eftir. Það er gaman að spreyta sig og skömm að því að nota ekki tímann sinn vel. Tími er guðs gjöf og hann á að nota hér á jörð til að láta sér líða sem allra best í friði og ró.