Teikning er ein undirstaða málunar, rétt eins nótnalestur og tónfræði er undirstaða þess að geta leikið vel á hljóðfæri.
Sumir fá þessa hæfileika í vöggugjöf en aðrir þurfa að hafa meira fyrir því að ná valdi á þeim.
Það krefst mikils tíma og hugsunar ef vel á til að takast.

Á árum mínum við Myndlistarskóla Kópavogs fór ég á nokkur teikninámskeið bæði hjá Margréti, Ingiberg og síðast hjá Katrínu Briem.

Ingiberg Magnússon starfar sem myndlistarkennari við Myndlistarskóla Kópavogs. Námskeið hans eru gagnleg bæði
byrjendum og þeim sem reynslu hafa úr öðrum myndlistaráföngum og vilja styrkja sig í myndrænni og rökrænni
uppbyggingu eigin myndverka. (-25.okt 2015 - tekið af heimsíðu Myndlistarskóla Kópavogs )

Myndin. sem hér birtist er teiknuð á vornámskeiði og sýnir holtið við Kópavogskirkju.

 
 

Grjót í holti

Tekist á við grjótið með olíukrít, sem getur verið óvægin þó sakleysisleg sé þar sem hún liggur teinrétt í kassanum, ekkert hægt að stroka út!

Þurrkrít

Hver gengur ekki með Kjarval í maganum?!

Eitt vorið gafst okkur tækifæri til að fara með teiknikennaranum Ingiberg Magnússyni á Þingvelli og teikna undir hans leiðsögn það sem fyrir augun bar.

Gróðurinn var enn að mestu í dvala og snjórinn lá í dældum og lét dekstra sig til að hverfa.

Ég man að ég missti af bílnum og var komin heim aftur hundleið og svekkt en tók á mig rögg, , skellti draslinu upp í skrjóðinn og hélt ein til að leita að félögum mínum. Mér var vel tekið og skemmti mér vel í glímunni við þurrkrítina á Þingvöllum þennan bjarta vordag.

Fyrir neðan Straumsvík

Við erum svo heppin að vera í daglegri nálægð við náttúruna. Það þarf oft ekki að fara langt til að finna fallega staði.

Hér naut ég góðrar leiðsagnar míns ágæta kennara Ingibergs og vann með olíukrít á pappír niðri í fjörunni.

Yndislega fallegur og bjartur dagur.

Fyrir neðan Sraum

Gæti vel hugsað mér að reyna aftur við þá þessa! Þeir minna helst á

risaeðlur í fjöruborðinu og geta sjálfsagt sagt margar sögur.

Hjá Katrínu

Skemmtilegir, fræðandi og líflegir tímar hjá Katrínu Briem.

Unnið var með bleki, olíukrít og trélitum á ólíkan pappír.