Heimasaumuð föt

Þegar ég hætti að kenna "fulla" kennslu eins og sagt er hafði ég rýmri tíma og þá gerðist það ótrúlega að hugurinn leitaði m.a. í prjónaskap.

 

Mér fannst mjög erfitt að læra að prjóna þegar ég var barn og man vel eftir því þegar ég var í Austurbæjarskóla, líklega 6 ára í 7ára bekk, að bisa við að prjóna renning með garðaprjóni og síðan að sauma hann utan um herðatré . Ég man að liturinn á garninu var laxableikur og ég saumaði zik zak mynstur í prjónlesið eftir mikið basl. Ég átti þetta herðatré lengi. Heima sá ég aldrei neinn prjóna.

 

Mamma átti Singer saumavél sem hún saumaði á flestan fatnað og annað til heimilisins. Þá voru fáar stillingar á vélinni og helst hægt að stilla sporlengdina, ekkert zik zak spor en þó minnir mig að henni hafi fylgt fótur sem auðveldaði að setja rennilás í föt og svo annar til að nota þegar gert var við fatnað. Mamma setti stundum rennilás í hálsmálið  að framaná kjólunum mínum og svo saumaði hún fallega jakka með rennilás. Á kvöldin sat hún gjarnan og stoppaði í sokkana og ég lærði fljótlega að gera slíkt hið sama. Þetta var mikil vinna því efnð í sokkunum var lélegt og þeir slitnuðu ört.

Neyðin kennir......

Ég var þó ekki mjög gömul þegar ég byrjaði að reyna að sauma á mig föt í saumavélinni hennar mömmu minnar. Ég minnist þess vel þegar roc´n roll bylgjan fræga skall á voru allar stelupr í hringsniðnum filtpilsum, þröngum flauelispilsum og níðþröngum gallabuxum. Þetta voru fyrirmyndir sem við sáum í bíó en fatnaðurinn fékkst ekki í verslunum á Akranesi. Þá hikuðum við ekki við að kaupa efni, finna snið og sauma á okkur sjálfar. Þetta var skemmtilegt tímabil og svo ef við vorum í víðu pilsunum þurfti að sauma undir þau stíf undirpils. Þetta var sko flott og gaman að dansa í pilsum sem stóðu beint út í loftið þegar snúningarnir voru sem mestir.

Seinna fór ég í vist og þá saumaði ég líka anorak og vinnuslopp. Áfram saumaði mamma flest önnur föt á mig en þegar fram liðu stundir og sú unga gerðist kröfuhörð fékk hún saumakonu til að sníða fötin og loks sá Sigga á Bakka um mest allan minn fatasaum alveg fram yfir giftingu.

Sigríðurvar frábær saumakona og þar að auki mjög elskuleg og góð manneskja. Það var alltaf spennandi að fá að koma til hennar og skoða nýjustu tískublöðin, velja og bollaleggja með henni hvað hægt væri að gera.

Mamma sá alltaf til þess að ég væri vel klædd og sjálf gerði ég talsverðar kröfur.

Á myndinni er ég á fyrsta ári í menntaskóla og í fötum, sem ég saumaði sjálf, plíserað pils og blússa, sem ég hannaði.