Takk fyrir mig!

posted in: Á döfinni | 0

Á sunnudagskvöldi var ég stödd á tónleikunum í Hörpu og hlýddi á Philharmonia Orchestra skarta sínu fegursta. Hinn tékkneski Jakub Hrůša stjórnaði tveimur vinsælum tékkneskum verkum: Forleik að óperunni Selda brúðurin eftir Smetana og hinni mögnuðu sjöundu Sinfóníu Dvořáks. Rússneski píanistinn Daniil Trifonov sló svo í gegn með öðrum píanókonserti Rachmaninovs, einu vinsælasta tónverki allra tíma.

Þessi frábæra hljómsveit hefur áður komið hér við sögu og í ár eru liðin 30 ár frá því Philharmonia Orchestra, undir stjórn Vladimirs Ashkenazy, hélt tónleika í Royal Festival Hall í London til þess að safna fyrir tónlistarhúsi Íslendinga. Allt fé sem safnaðist fór til byggingar tónlistarhúss á Íslandi. Ári fyrr hafði Philharmonia verið fyrsta breska sinfóníuhljómsveitin til að leika hérlendis, á tvennum tónleikum í Laugardalshöll, en eftir ferðina þótti ljóst að þörf væri á góðu tónleikahúsi á Íslandi. Philharmonia Orchestra átti verulegan þátt í því að af byggingu Hörpu varð og því er mikið fagnaðarefni að bjóða hljómsveitinni heim í Eldborgarsal Hörpu, nú á fimmta starfsári hússins. (Tekið af vef Hörpu 19.10 2015)

Af mér er það að segja að tárin runnu undir flutningi Daniils á öðrum píanókonserti Rachmaninovs.

Hvílík snilld!

Af þessu ætti enginn að missa.

Vona bara að Eldborgarsalur fyllist í kvöld en þá verða tónleikarnir endurteknir.

Leave a Reply