Enn ein vikan liðin og ef ég hefði ekki þann vana að punkta hjá mér hvað gerist flesta daga væri ég í tómu tjóni og kæmi engu hér inn. Rólegir dagar í borginni en fjör hér heima því barnabörn og aðrir góðir gestir létu sjá sig auk þess sem ég fór á kaffihús í Laugardalnum og opnun sýninga í ANARKÍU.
Friðrik Jónsson var á sama námskeiði og ég í vetur. Hann er frábær maður, kátur skemmtilegur og góður listamaður, aðeins 94 ára gamall! Hann þekkir vel til á Skaganum og hefur haldið nokkrar sýningar þar. Friðrik var á árum áður skipstjóri á sementsflutningaskipinu Skeiðfaxa sem sigldi á milli Akraness og Reykjavíkur. –
Vikan endaði svo með því að ég horfði á athöfn sem fór fram við Arnarhól á sunnudagskvöld og var til heiðurs Vigdísar Finnbogadóttur fyrrverandi forseta landsins.
Vigdís var glæsileg að vanda og lét ekki íslenskan rigningarúða hafa áhrif á sig. Myndirnar tók ég af sjónvarpsskjánum og vænst þótti mér um að heyra forsetann tala til þjóðarinnar enn og aftur um mikilvægi þess að vernda náttúru Íslands og tungumálið. Orð hennar eru leiðarljós sem lýsa öllum þjóðum og vísaði til mikilvægis Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur um leið og hún sagði hlý og kímin: “Þar sem allir er til landsins koma munu leita að sjálfum sér!”