Rauðrófur í potti mínum!

Nanna Rögnvaldardóttir er þekkt fyrir skrif um mat.

Hún gaf nýverið út bók sem ber titilinn Létt og litríkt.

Bókin er gefin út af Forlaginu.

Þar eru góðar uppskriftir að grænmetissúpum og réttum

en einnig hefðbundnum hollum heimilismat.

Mæli eindregið með þessari bók.

Slóðin að heimasíðu  Nönnu er

http://nannarognvaldar.wordpress.com/

og þar er  (ef leitað er með orðinu súpur)

 

https://nannarognvaldar.wordpress.com/2016/01/10/veganuarsupa/

 

Sent til Katrínar á Sardiníu 

Eplakaka frá ömmu Margréti í Stykkishólmi.

Margrét sótti húsmæðraskóla að Staðarfelli á Fellsströnd í Dalasýslu og ég tel mjög líklegt að þaðan hafi hún fengið uppskriftina en svo getur það einnig verið að hún hafi fengið hana frá danskri vinkonu, sem var gift apótekara í Stykkishólmi en þau hjón voru vinafólk langafa Williams Thomasar og Margrétar. Þessi kaka var höfð á borðum á jólum og svo einnig  við önnur hátíðleg tækifæri.

Amma þín Dídí þekkir líka þessa köku og svo var hún einnig á borðum heima hjá mér og víðar.

Staðarfell er bær og kirkjustaður á Fellsströnd í Dalasýslu, áður höfðingjasetur og stórbýli en frá 1927 var þar húsmæðraskóli  (Við amma Dídí ókum þarna um í sumar með Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar og nutum þess því þarna er mjög fallegt).

 

Eplakaka  (gömul uppskrift)

1 ½ kg ný epli   (eða ½ kg þurrkuð, sem hafa verið lögð í bleyti)

(Jónagold epli reynast vel ca 10-12 stk.)

Svolítið vatn á eplin  (nokkrar matskeiðar)

450 gr. sykur

500  gr. Tvíbökumylsna (hakkaðar í hakkavél eða grænmetiskvörn eða blandara??)

225 gr. smjörlíki (ég nota smjör)

Örlítið salt

Örlítið af  vanilludropum eða vanillusykri

7 ½ dl þeyttur rjómi

Eplin eru afhýdd og skorin í bita og soðin með svolitlu vatni við vægan hita þar til þau maukast auðveldlega með stöppujárni t.d. kartöflustöppujárni

Helmingurinn af sykrinum er látinn út í eplamaukið þegar það er orðið vel soðið og maukað

Bæta smá salti og örlitlu af vanilludropum út í maukið, smakka !

 

Þá er komið að tvíbökumylsnunni

Best er að blanda saman mylsnunni og sykrinum (225 gr.) í skál og vinna með helminginn í einu

Bræða helminginn af smjörinu við vægan hita á pönnu og setja helminginn af blöndunni út í

Svo þarf að hækka hitann og hræra stöðugt með spaða fram og aftur þar il mylsnan brúnast og verður vel gullin, gæta þess að mylsnan brenni ekki og lyfta pönnunni af hitanum, hræra og hræra!!!

Síðan er eins farið með hinn helminginn af mylsnunni og smjörinu.

Þetta ætti að duga vel í tvær góðar kökur

Síðan eru herlegheitin sett í skál

Fyrst botnfylli af eplamauki og svo mylsna og svo koll af kolli en endað á lagi af mylsnu.

Þeyttur rjómi er borinn með kökunni og kakan gjarnan skreytt með ribsberjahlaupi

Sumarsúpa á borðum 12 júní 2017

Uppskriftina er að finna í hinu vinsæla eldhúsriti "Vinsælir eftirlætisréttir" sem gefið var út í stakblaðaformi fyrir mörgum árum. Þar kallast súpan "Tómatsúpa með ferskjum og rækjum". 

HRÁEFNI
Laukur (1 stk.)
Hvítlauksrif (1-3 stk.)
Matarolía
Karrí (1-2 tsk.)
Tómatar - niðursoðnir (ein dós - 400 g.)
Fisksoð (4 dl. vatn + teningar)
Ferskjur - niðursoðnar frá Dole (1 dós)
Rjómi (2,5 dl.)
Ferskjusafi (úr dósinni)
Rækjur (200 g.)
Kínakálshaus (fjórðungur)

1. Saxið lauk og hvítlauk. Hitið matarolíu í potti, stráið karríi yfir og léttsteikið lauk og hvítlauk.
2. Brytjið niðursoðna tómata og setjið í pottinn ásamt fisksoði. Látið krauma í 5-10 mín.
3. Skerið feskjurnar í bita og setjið út í súpuna ásamt rjóma. Bragðbætið með örlitlum ferskjusafa. Hleypið upp að suðu.
4. Takið pottinn af hellunni og setjið rækjur út í heita súpuna (látið ekki sjóða).
5. Skerið kínakálið í mjóa strimla, setjið í súpuskálarnar og hellið súpunni yfir.

Mælt er með hvítvíni og brauði sem meðlæti. Ég ber nú yfirleitt vatn fram með þessari súpu ásamt brauði enda tími ég ekki að spilla ríkulegu bragðinu af súpunni sem situr í manni lengi á eftir.

Hér fylgir engin mynd því mér láðist að mynda mína útgáfu af þessari frábæru hugmynd sem hér er sett fram. Mér fannst að þessi uppskrift væri full sterk þar sem börn og unglingar voru meðal gesta og bætti því við hana rófu, gulrótum og sætri kartöflu sem ég sauð og maukaði með töfrasprota. Setti líka blaðlauk í stað venjulegs lauks og lék mér með krydd. Kókosmjólk kom vel út í stað rjóma.

Með súpunni bárum við fram súrdeigsbrauð frá Mosfellsbakaríi og  grannatepla- og rauðrófusalat, bættum ferskum nektarínum í bitum út í.