2. desember var opið hús hjá Ásdísi. Hún hefur haft þennan hátinn á nokkur jól og er það vel þegið af samkennurum hennar, sem enn halda hópinn og hittast í hverjum mánuði. Eins og sést á myndinni er veislan um hádegið og þá er mikið spjallað, etið og hlegið og húsbóndinn hefur varla undan við að hella upp á könnuna. - Unaðsleg stund á heimili mikilla sæmdarhjóna.
"Þeir sem hafa farið á jólatónleika með Palla og Moniku, vita að maður kemur út betri maður á eftir. Á efnisskránni eru ýmis jólalög sem Palli og Monika hafa spilað undanfarin áratug, auk þekktustu popplaga Palla í sérstökum útsetningum fyrir hörpu og strengjakvartett." (tekið af vef 21.jan '17)
Undir þessi orð get ég nú tekið því sonur minn og fjölskylda buðu mér með sér í Háteigkirkju 3. desember og ég naut þess. Takk fyrir mig!
Epli eru í minni minningu jólin. Þegar ég var barn fengum við epli á jólum. Þá var keyptur kassi af eplum og appelsínum og ilmurinn fyllti stofuna. Það voru að koma jól!
Seinna varð eplakaka eftir uppskrift frá tengdamóður minni og móður að stórum lið í jólaundirbúningi. Þessi kaka var oft á borðum móður minnar en aðeins á jólum og stórhátíðum hjá tengdamóður minni a.m.k. eftir að ég kynntist henni. Það eru ekki allar eplakökur eins og mjög misjafnt hvernig fjölskyldur vilja hafa kökuna sína. Ég set hér inn á síðuna á öðrum stað uppskrift, sem ég setti saman eftir nokkrar pælingar og rannsóknarvinnu!
Ég prjónaði nokkur pör af "tiljum" fyrir jól. Veit að eitt parið var vel þegið á Sardiníu þar sem húsin eru minna hituð en hér. Af hinum pörunum hef ég ekki haft spurnir og þarf að grenslast eftir því hvernig þau líka. Uppskriftina hef ég tekið eftir "tilju" sem ég fann í fórum mínum og mun ættuð frá Margréti tengdamóður minni. Ég setti hana inn á handavinnusíðuna.
Þar sem ég átti ekki greiðan aðgang að jólaskrautinu okkar við upphaf aðventu tók ég það ráð að skreyta vel eldhúsgluggann og gerði nokkrar dansmeyjar, sem síðan "dönsuðu" á jólatrjám barnabarna og vina. Mér fannst þetta skemmtilegt!
Okkur tókst þó með góðra manna hjálp að nálgast jólaskrautið og skreyta fyrir aðfangadag.
Þessi krans hefur fylgt okkur mjög lengi og það þarf aðeins að setja á hann nýja grein.
Könglarnir, sem eru frekar stórir voru týndir í Triest á Ítalíu fyrir fjölda mörgum árum
og þeir einir koma til greina sem skraut með greininni. Einfalt og gott!
Allt frá því að foreldrar mínir féllu frá höfum við sett greinar á leiði þeirra. Í fyrstu var þetta gert á aðfangadagsmorgun og á eftir komu börnin, og seinna barnabörnin, heim til með okkur til að snæða saman dögurð. Þessi venja hefur haldist nær óbreytt allan þennan tíma eða í rúmlega 30 ár. Ég hef að vísu breytt hefðinni síðustu ár, set grenigrein með eplum á leiðin á Þorláksmessu þegar umferð er lílil í garðinum og svo fáum við okkur grjónagraut og annað góðgæti saman á aðfangadagsmorgun. Þá um leið fara fram pakkaskipti. Allt gengur þetta þótt þröngt sé á þingi og við höldum sæl og glöð inn í jólin.
Ég er börnunum mínu mjög þakklát fyrir að hafa haldið með okkur þessari venju og mér finnst alltaf jafn ótrúlegt þegar allt tekst svona vel. Þökk sé ykkur öllum.