Afmælisdagurinn 12. júní!
Þessi dagur hefur tekið á sig ákveðna mynd og virðist virka sem inngangur inn í sumarið hjá fjölskyldu minni og vinum. Margir muna eftir honum og hann líkist helst sumardeginum fyrsta.
Þegar ég var lítil var ekki gert mikið úr afmælisdögum í fjölskyldunni. Þó man ég að mamma gaf mér falleg föt og bauð krökkunum í húsinu inn til okkar. Hún gerði stundum haframjölskonfekt og eitt sinn gaf hún okkur súkkulaðiþykkni með þeyttum rjóma á litlum undirskálum, sem voru frá mokkastellinu hennar en við það átti hún litlar teskeiðar og okkur fannst þetta algjört ævintýri. Að fá svona góðgæti á flottum diskum var eitthvað sem gerðist mjög sjaldan. Á þessum tímum eða um 1950 var ekki mikið vöruúrval eða efni til að halda stórveislur fyrir börn og því þurfti ekki mikið til að gleðja sálirnar.
Á unglingsárum var heldur ekki mikið um afmælisveislur en eitt vorið minnist ég þess að tvær vinkonur mínar úr barnaskóla færðu mér lítinn kaffibolla með Íslandsmynd og gylltri áletrum. Ég stillti honum upp í hansahillu sem var í herberginu mínu í Vallholti og oft velti ég því fyrir mér hvernig þeim gat dottið í hug að gefa mér þennan hlut.
Árin liðu og ég fór flest sumur að heiman eins og títt var um unglinga á þeim árum. Seinna eignaðist ég góðar samstarfskonur og við tókum upp á því að hittast í morgunkaffi hjá hver annarri á afmælisdögum okkar. Í minningu minni varð þetta til þess að fjölskyldan vildi fá kræsingar og kaffi líkt og vinkonurnar fengu. Stundum urðu blessaðir afmælisdagarnir mjög annríkir og ekki síst á þeim árum er skólanum lauk á svipuðum tíma.
12. júní í ár rann upp bjartur og fagur og hér var hádegisverður með grænmetissúpu að hætti Nönnu Rögnvaldar, egg, beikon, grænmeti,ávextir og tertur með kaffi og gosdrykkjum fyrir þá sem vildu. Í dag hugsa flestir mikið um hollustu og það er vel.
Ég fékk eins og oft áður góðar gjafir og falleg blóm en það besta við afmælisdaga er að þá safnast fjölskyldan saman og oft er mjög glatt á hjalla.
Like this:
Like Loading...
Related
Translate »