Janúar hefur liðið, kaldur en mér góður.
12. janúar er afmælisdagur í fjölskyldunni. Við fengum við okkur rauðrófusúpu, hamborgarhrygg, kjúkling og berjaböku. Ég reyndi að nota nýjar uppskriftir frá Sollu í Gló og gekk bara vel. Allir fóru saddir og sælir til síns heima (sumir of!). Gott og fallegt fjölskyldukvöld Tók eftir því að skórnir í forstofunni stækka ört og bráðum rúmar hún varla meira!
Það vildi til á aðventu að ég hitti kennarann og leirlistakonuna Ingunni Ernu Stefánsdóttur inni í Söstrene Grene og hún bauð mér að heimsækja sig á vinnustofuna sína að Seljavegi. Þar hef ég komið áður og átt viðskipti við listakonuna. Hún vann fyrir mig fallegar drykkjarkönnur, sem hún myndskreytti eftir persónulýsingum er ég sendi til hennar. Ótrúlega fallegar og persónulegar könnur. Ingunn Erna er flink og var mér góður kennari en um tíma var hú skólastjóri ásamt Sigríði Einarsdóttur vip Myndlistarskóla Kópavogs.
Ég er enn og aftur komin á námskeið til Erlu Huldar í Myndlistarskólanum. Verkefnið sem við byrjuðum á er krefjandi og kennt í framhaldstíma þar sem eru nemendur er hafa haldið vel á spöðunum og vinna jafnvel heima.
Erla Huld er mjög fær kennari, listakona og jafnframt skólastjóri. Hún leggur verkefnið vel upp og dekrar við okkur.
Við áttum að gera gifsmót fyrir þrívíðan hlut og ég ætlaði að gera sporöskjulagað egg sem endaði sem kúlulaga vasi! Meira um það seinna. –