Nú er risinn nýr dagur, nýtt upphaf.
Ég opnaði svaladyrnar og bauð daginn velkominn.
Það eru forréttindi að búa á Íslandi, sjá til fjalla og út á sjóinn.
Esjan stendur kyrr í öllu sínu veldi en fyrir þeim sem ætla sér um of
í hlíðum hennar getur farið illa.
Hún skýlir okkur fyrir norðanáttinni og ég vildi ekki búa hér án hennar.
Mér finnst hún sem móðurfang og kjalta.
Þeir sem hugsanlega lesa þessi skrif mín eru og verða vonandi tryggir og staðfastir sem hún.
Það að mega veita öðrum skjól er mikil gæfa hverjum sem til þess er treyst.
Við höldum að best sé að eiga sem mest og að hafa talsvert umleikis
en þá hverfur kyrrðin og friðurinn, tíminn til að íhuga og njóta,
þakka það sem við höfum og gerum núna.
Ég horfi í hlíðar Esjunnar og Akrafjallsins, sem mér þykir vænt um. Það fóstraði mig um árabil sem ungling
og þangað var gott að hverfa með vinum úr skátafélaginu og skólafélögunum sem hjóluðu saman í kringum fjallið
eins og væru þeir að helga sér land.
Hér kúra þau saman Akrafjall og Esjan, þar eru mínir vættir og okkar skjól.
Það var minni litlu fjölskyldu til mikillar gæfu að flytjast til Akraness.
Þar tókumst við á við lífið með góðu og duglegu fólki sem tók okkur vel
og studdi í leik og starfi enda finnst mér alltaf gott að koma
þangað og þar búa enn margir skólafélaga minna.
Like this:
Like Loading...
Related
Translate »
2 Responses
Jóhanna V. Þórhallsdóttir
Mikið er gott að lesa eitthvað fallegt um landið sitt. Ég er orðin svo leið á þessum eilífu færslum hjá fólki sem er að flýja til Noregs
Anna
Takk fyrir þetta, Jóhanna mín. Spennt að vita hvort svar mitt birtist hjá þér, er alveg græn!