Hver á sér fegra föðurland?
Þegar ég var 7 ára í Reykjavík var verið að byggja undir hitaveitulagnir í Hlíðunum. Ef ég man rétt stikklaði ég yfir Miklubrautina á tréplönkum með rjómlapela í hendinni, það var að koma 17. júní! Tilhlökkunin, eftirvæntingin var ólýsanleg. Mamma hafði saumað á mig rauðan jakka og pils og svo hvíta flauelishúfu, sem mig grunar að hafi verið gerð vegna þess að ég fékk svo oft eyrnabólgu. Við fórum niður á Arnarhól og skemmtum okkur konunglega. Ég á margar minningar um sólríka þjóðhátíðardaga, minningar sem ylja á löngum vetrum og styrkja hvern Íslending til dáða. Sumt má fá að vera í friði. Við sem eldri erum eigum að gefa landi og þjóð góðar og fallegar myndir, góðar stundir til að hleypa kjarki og dug í fólk, gera þjóð að þjóð sem “unir grandvör, farsæl, fróð og frjáls – við ysta haf.”
17. júní 2015 í Reykjavík, kalt í bænum en
í garði Grétu voru nýútsprungin blóm og í stofunni pönnukökur og kaffi. Þar var glatt á hjalla og allir í þjóðhátíðarskapi.
Og áfram halda hátíðarhöld. Það er kominn 19. júní og 100 ár liðin frá því að íslenskar konur og verkamenn – ¨almúginn” fengu kosningarétt.
Þennan dag fór ég á Árbæjarsafn og sá sýninguna Hjáverkin–atvinnusköpun kvenna í heimahúsum.
Á árunum 1900-1970 var heimilið staður konunnar og voru verkefnin ærin. En ofan á heimilisstörfin öfluðu konur sér oft tekna með annarri vinnu sem oft var unnin inn á heimilinu svo sem saumaskap, bakstri og kennslu. Þessi vinna finnst ekki skráð og framlag kvenna verður ekki vart í hagtölum. Það má því segja að þetta hafi verið hulið hagkerfi sem þó allir vissu af og þótti nauðsynlegt til þess að hægt væri að framfleyta fjölskyldunni.
Sýningin er staðsett í Kornhúsinu. Ég naut hennar vel, fékk mér svo kaffi og vöfflu í Dillonshúsi og tók okkrar myndir sem minntu mig á liðna daga í sveitinni og hjá ömmum mínum
Ég elska rabarbara og í vikunni gaf góð vinkona mín mér rabarbara, sem ég er með í pottinum og á að verða sumarsultan í ár. Fallega rauður vínrabarbari .
Og enn heldur vikan áfram og við heimsóttum Akranes þar sem fram fór Norðurálsmótið 2015 19. – 21. júní 2015 í knattspyrnu. Þar áttum við góða fulltrúa og skemmtum okkur vel með þeim.
Héðan á ég margar góðar minningar þar sem við krakkarnir busluðum á Langasandi.
.